Viðskipti innlent

Gunnar Sturluson hjá LOGOS með réttarstöðu grunaðs manns

Guðný Helga Herbertsdóttir skrifar

Gunnar Sturluson, faglegur framkvæmdastjóri LOGOS, hefur fengið réttarstöðu grunaðs manns í rannsókn efnahagsbrotadeildar á hugsanlegum skattalagabrotum eignarhaldsfélaga tengdum Hannesi Smárasyni.

Starfsmenn efnahagsbrotadeildar gerðu húsleit á lögfræðistofunni Logos í gær. Leitað var á skrifstofum tveggja starfsmanna sem hafa starfað fyrir Hannes Smárason og félög tengd honum.

Þá var einnig gerð húsleit á heimilum Hannesar.

Grunur leikur á að tekjuskattsstofnar sem nema tugum milljóna hafi verið vantaldir. Gunnar Sturluson, faglegur framkvæmdastjóri Lögfræðistofunnar Logos hefur verið lögmaður Hannesar, setið í stjórnum og verið framkvæmdastjóri félaganna sem nú eru til rannsóknar.

Gunnar sagði sig úr stjórnum félaganna, utan eins félags, í nóvember á síðasta ári en sat í stjórnunum þegar meint brot áttu sér stað, á árunum 2006 og 2007.

Samkvæmt heimildum fréttastofu var Gunnar yfirheyrður í dag og hefur hlotið réttarstöðu grunaðs manns. Við yfirheyrslur var tilefni rannsóknarinnar kynnt en hún er á frumstigi.

Sú breyting hefur orðið á starfsháttum Efnahagsbrotadeildar að fleiri en færri hljóta réttarstöðu grunaðra til að tryggja rannsóknarhagsmuni.

Gunnar vildi ekki tjá sig um málið þegar fréttastofa hafði samband við hann í dag.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×