Stjórnvöld í Japan hafa fært efnahagsspá sína fyrir árið úr núlli í samdrátt upp á 3,3 prósent. Fjárlagaárið þar í landi hófst um mánaðamótin.
Þetta er nokkuð í takti við væntingar en efnahagur í Japan er mjög knúinn af útflutningi, ekki síst á bílum og tæknibúnaði. Bílaiðnaðurinn hefur hins vegar hrunið víða um heim auk þess sem færri kaupa dýr raftæki en áður. Þetta hefur valdið einu snarpasta samdráttarskeiði sem sést hefur í landi hinnar rísandi sólar frá tímum seinni heimsstyrjaldar, að sögn bandaríska dagblaðsins New York Times.
Þetta er talsvert undir spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins en hann gerði ráð fyrir 6,2 prósenta samdrætti. - jab