Sport

Frábær árangur hjá Stefáni Jóni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Stefán Jón á fullu í Val d'Isere.
Stefán Jón á fullu í Val d'Isere. Nordic Photos / Getty Images
Stefán Jón Sigurgeirsson tryggði sér í dag þátttökurétt í aðalkeppni svigsins á HM í alpagreinum sem fer fram í Val d'Isere í Frakklandi.

Stefán Jón var með rásnúmer 39 en náði 23. sæti eftir frábæra seinni ferð. Hann keppir því ásamt Björgvini Björgvinssyni í aðalkeppni svigsins á morgun en það er lokagrein mótsins.

Gísli Rafn Guðmundsson keppti einnig í undankeppninni í dag en féll úr leik í fyrri ferðinni.

Stefán Jón kom í mark á 53,64 sekúndum eftir fyrri ferðina og var þá 3,74 sekúndum á eftir fremsta manni.

Hann var í 29. sæti og var því annar í rásröðinni í seinni ferðinni. Það færði hann sér í nyt og náði frábærum tíma, 50,07 sekúndur sem reyndist vera aðeins hálfri sekúndu frá efsta manni í síðari ferðinni. Með þeim tíma náði hann 23. sætinu.

Stefán Jón komst einnig í gegnum undankeppnina í stórsviginu en féll úr leik í aðalkeppninni, rétt eins og Björgvin Björgvinsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×