Innlent

Þrjár kærur vegna Suðvesturlínu

Fjöldi tengivirkja mun rísa vegna Suðvesturlínu, sem á að liggja um tólf sveitarfélög. Fréttablaðið/Vilhelm
Fjöldi tengivirkja mun rísa vegna Suðvesturlínu, sem á að liggja um tólf sveitarfélög. Fréttablaðið/Vilhelm

Þrjár kærur hafa borist Umhverfisráðuneytinu vegna ákvörðunar Skipulagsstofnunar að ekki skuli fara fram sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum Suðvestur­línu og tengdra framkvæmda.

Kæra Græna netsins, félags jafnaðarmanna um umhverfið, náttúruna og framtíðina, byggist á því að ávinningur af sameiginlegu mati línulagnar, áformaðs álversrekstrar við Helguvík, virkjana og fleiri framkvæmda náist ekki með umhverfismati hverrar og einnar af þessum framkvæmdum. Réttur almennings til fullrar upplýsingar og áhrifa vegi þyngra en rök Skipulagsstofnunar um óhagræði framkvæmdanna af sameiginlegu mati.

Náttúruverndarsamtök Íslands lögðu fram kæru á grundvelli þess að ekki fengist heildarmynd af umhverfisáhrifum framkvæmdanna við Suðvesturlínu nema þær væru metnar saman í einu lagi.

Þá segir í kæru Landverndar að Skipulagsstofnun hafi ekki haft forsendur fyrir ákvörðuninni, þar sem ekki hafi verið búið að upplýsa nema að hluta hvaðan orkan vegna framkvæmdanna ætti að koma.- hhs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×