Viðskipti innlent

Förum ekki undir kostnaðarverð segir forstjóri VALITOR

Gunnar Örn Jónsson skrifar
Höskuldur Ólafsson, forstjóri VALITOR.
Höskuldur Ólafsson, forstjóri VALITOR.
Eins og kom fram á Vísi fyrir stundu fóru fulltrúar Samkeppniseftirlitsins í starfsstöðvar VALITOR og framkvæmdu húsleit vegna kvörtunar sem eftirlitinu hafði borist frá samkeppnisaðilanum, Borgun. Ekkert til í þessu, segir Forstjóri VALITOR.

„Borgun telur að við séum að rukka lægri þjónustugjöld til kaupmanna, á svokölluðum færsluhirðingarmarkaði. Sá markaður er okkar þjónusta til söluaðilanna, það er að segja þjónusta við kaupmenn," segir Höskuldur Ólafsson, forstjóri VALITOR og tekur ennfremur fram að þessi kvörtun Borgunar tengist almennum kortanotendum ekki á neinn hátt.

Höskuldur telur þessar fullyrðingar ekki eiga við nein rök að styðjast. „Við vitum okkar stöðu og vitum hvernig við eigum að haga okkur á markaði. Við verjum einfaldlega okkar stöðu og bjóðum lægra verð í einhverjum tilfellum, það er ekkert sem bannar okkur að lækka verðið í einstaka tilfellum en við förum engan veginn undir kostnaðarverð og fylgjum að öllu leyti samkeppnislögum. Það er mjög hörð samkeppni á markaðinum og ég útiloka ekki að Borgun sé að reyna að nýta þessar aðgerðir sínar gegn okkur í samkeppnislegum tilgangi," sagði Höskuldur Ólafsson, forstjóri VALITOR í samtali við Vísi.

Kollegi Höskuldar hjá Borgun var ekki á þeim buxunum að ræða málið við fréttamenn á þessum tímapunkti.

„Eðli málsins samkvæmt og í samræmi við rannsóknarhagsmuni þá get ég því miður ekki tjáð mig neitt um þetta mál að svo stöddu," sagði Haukur Oddsson, forstjóri Borgunar, þegar Vísir innti hann eftir ástæðum kærunnar til Samkeppniseftirlitsins.




Tengdar fréttir

Samkeppniseftirlitið fór í húsleit hjá VALITOR

Í morgun fóru fulltrúar Samkeppniseftirlitsins í starfsstöðvar VALITOR að Laugavegi 77 í Reykjavík og framkvæmdu húsleit vegna kvörtunar sem eftirlitinu hafði borist frá keppinautnum Borgun um meinta misnotkun á markaðsráðandi stöðu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×