Skoðun

Brettum upp ermar

Ekki má gera lítið úr þeirri erfiðu stöðu sem þjóðin er í. Sú staða er þó líkleg til að versna til muna ef við náum ekki að snúa vörn í sókn, neikvæðni í jákvæðni og vonleysi í hugrekki.

Hvert og eitt okkar á í raun tvo valkosti. Við getum valið að trúa því að ekkert muni breytast til hins betra í kjölfar hrunsins mikla og lagt árar í bát eða við getum valið að sjá tækifærin sem felast í umbreytingartímum og tekið virkan þátt í að endurreisa og skapa hér heilbrigt, gjöfult og árangursríkt samfélag. Síðara viðhorfið er betri valkostur og líklegra til árangurs.

Tækifærin eru mörg. Nauðsynlegur niðurskurður á fjárlögum felur til dæmis í sér tækifæri til að spyrja hvernig við viljum haga menntun, heilbrigðis- og velferðarmálum.

Við erum í aðstöðu til að hugsa hlutina upp á nýtt og skapa samfélag sem endurspeglar betur þá framtíð sem við kjósum. Niðurskurður þarf ekki að þýða síðri menntun eða verra velferðarkerfi ef við höfum hugrekki og þor til að hugsa í skapandi lausnum.

Það er ekki líklegt til árangurs að bíða þess að kjörnir fulltrúar okkar leysi hvern þann vanda sem við stöndum frammi fyrir. Nærtækara er að opinberar stofnanir og leiðtogar þeirra nýti sinn hæfileikaríka mannauð til að leita leiða til sparnaðar sem og nýsköpunar með það að markmiði að bæta þjónustuna þrátt fyrir minna fjármagn.

Endurnýjanlegar orkulindir, hreint vatn, matvæli og náttúra skapa einstök tækifæri til verðmætasköpunar og vel menntaður mannauður er nú á lausu til að nýta slík tækifæri.

Fjármagn er til reiðu, bæði innlent og erlent, en við þurfum að bretta upp ermar, taka ákvarðanir og fara að vinna. Tími biðstöðu og ákvörðunarfælni er liðinn.

Við erum þjóð sem ítrekað hefur tekist á við áskoranir og harðindi og við höfum sýnt og sannað að við getum unnið okkur út úr hverri þeirri áskorun sem við stöndum frammi fyrir.

Við höfum í hendi okkar að sameinast um framtíðarsýn og grunngildi sem hugnast okkur öllum. Við eigum að horfast hreinskilnislega í augu við okkur sjálf og læra af mistökunum en við eigum líka að byggja áfram á okkar helstu styrkleikum, frumkvöðlakraftinum og dugnaðinum.

Þetta eru þeir eiginleikar þjóðarinnar sem munu reynast hvað mikilvægastir næstu misserin. Þetta verður erfitt en staðan er viðráðanleg ef gjaldeyris- og verðmætasköpun er enn til staðar.

Góðir Íslendingar, brettum upp ermar og græðum Ísland.




Skoðun

Sjá meira


×