Yfirlýsingar forystumanna Samfylkingarinnar og Vinstri grænna undanfarna daga vekja upp spurningar um hvort flokkarnir séu búnir að semja um bæði Evrópusambandsumsókn og stóriðjumál. Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, segir þær sögusagnir rangar að stjórnarmyndunarviðræður séu þegar hafnar.
Yfirlýsingar forystumanna Samfylkingarinnar og Vinstri grænna undanfarna daga í þeim tveim stóru málaflokkum, þar sem helst skilur á milli flokkanna, hafa vakið athygli og þá einkum hvernig þeir hafa reynt að brúa bilið á milli flokkanna.
Þannig mátti skilja á Össuri Skarphéðinssyni iðnaðarráðherra í umræðuþætti á Ríkissjónvarpinu í fyrrakvöld að hann styddi ekki lengur uppbyggingu álvers á Bakka við Húsavík þegar hann sagði nóg komið af álverum. Daginn áður hafði Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra gefið sterklega til kynna að Vinstri grænir myndu ekki gera kröfu um þjóðaratkvæðagreiðslu áður en farið yrði í aðildarviðræður við Evrópusambandið.
Þeir Össur og Ögmundur voru lykilmenn í myndun núverandi ríkisstjórnar flokkanna og talið að þeir hafi átt einkaviðræður áður en Samfylkingin sleit ríkisstjórnarsamstarfinu við Sjálfstæðisflokk. Yfirlýsingar þeirra tveggja síðustu daga vekja því upp þá spurningu hvort flokkarnir séu búnir að semja um það sín á milli að Vinstri grænir gefi eftir í Evrópusambandsmálum gegn því að Samfylkingin gefi eftir í stóriðjumálum.
Þegar Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, var spurður um þetta svaraði hann í hádegisfréttum Bylgjunnar að allar samsæriskenningar um baksamninga fyrirfram væru rangar. Það hefði ekki verið samið um eitt eða neitt í þeim efnum.
llar samsæriskenningar um baksamninga fyrirfram væru rangar. Það hefði ekki verið samið um eitt eða neitt í þeim efnum.