Handbolti

HM: Danir í undanúrslit

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Michael Knudsen og Sebastian Preiss takast á í leiknum.
Michael Knudsen og Sebastian Preiss takast á í leiknum. Nordic Photos / AFP
Danir tryggðu sér í dag sæti í undanúrslitunum á HM í handbolta í Króatíu eftir sigur á Þjóðverjum, 27-25.

Leikurinn var jafn allan tímann og æsispennandi. En það voru Danirnir sem reyndust sterkari á lokamínútunum. Staðan í hálfleik var 14-14.

Bæði lið fengu möguleika í upphafi leiks til að koma sér í myndarlega forystu en misnotuðu þá. Leikurinn var því afar jafn og spennandi en Þjóðverjar hefðu getað komist í tveggja marka forystu undir lok fyrri hálfleiks er staðan var 14-13.

En í stað þess að skora úr sinni síðustu sókn misstu þeir boltann til Dana sem fengu aukakast skömmu áður en fyrri hálfleikur rann út. Lasse Boesen gerði sér lítið fyrir og skoraði úr aukakastinu og jafnaði þar með metin.

Síðari hálfleikur var áfram í járnum en Danir voru þó oftar með frumkvæðið. Þeir komust í tveggja marka forystu, 24-22, þegar sex mínútur voru eftir en Þjóðverjum tókst þó að jafna metin, 24-24.

Þegar Þjóðverjar jöfnuðu aftur metin, 25-25, virtist sem svo að þeir ætluðu að snúa leiknum sér í hag. Lars Kaufmann jafnaði með sínu sjötta marki en hann átti öfluga innkomu í stað Pascal Hans sem kom ekkert við sögu í seinni hálfleik vegna meiðsla. Þar að auki fiskaði hann mann af velli.

Þarna voru þrjár mínútur eftir en þrátt fyrir að vera manni færri tókst Dönum að hanga í sókn í tæpar tvær mínútur, fiska Þjóðverja út af og skora svo í þokkabót. Klavs Bruun Jörgensen var þar að verki.

Hinn magnaði markvörður Dana, Kasper Hvidt, varði svo frá Torsten Jansen í næstu sókn og Mikkel Hansen skoraði svo síðasta mark leiksins þegar skammt var til leiksloka.

Danir eru þar með öruggir í undanúrslitin en Þjóðverjar þurfa að bíða eftir úrslitum úr leik Póllands og Noregs til að sjá hvort þeir komist áfram.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×