Fótbolti

Bayern ætlar að gera allt til þess að halda Ribery

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Franck Ribery er frábær leikmaður.
Franck Ribery er frábær leikmaður. Mynd/GettyImages

Uli Hoeness, framkvæmdastjóri þýska liðsins Bayern Munchen, viðurkennir að það sé stríð framundan hjá félaginu við að reyna að halda Frakkanum Franck Ribery innan sinna raða.

Hinn 26 ára miðjumaður er á óskalista margra af stærstu klúbbum Evrópu og óttast Hoeness að tilboðum muni rigna yfir þýska liðið í sumar. Ribery hefur komið að 13 mörkum liðsins í þýsku deildinni í vetur, skoraði 6 og lagt upp önnur 7.

„Okkar markmið er að gera allt til þess að halda honum en það verður erfitt," sagði Hoeness í viðtali við Bild. „Það koma örugglega margar fyrirspurnir um hann frá öðrum liðum og því er það mikilvægt fyrir okkur að eyða út öllum vafa um annað en að við viljum halda honum," sagði Hoeness.

Hoeness segir umboðsmennina bíða færist til að koma nýjum félagsskiptum á koppinn. „Umboðsmenn græða þegar leikmenn eru seldir á milli félaga en ekki þegar þeir spila hjá sama félagi í mörg ár," sagði Hoeness sem óttast greinilega að Ribery verði kominn til stærstu félaga heims án þess að hann geti komið í veg fyrir það.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×