Innlent

Engin niðurstaða í morðrannsókn

Jón Hákon Halldórsson skrifar

Engin niðurstaða hefur fengist í rannsókn á morði íslenskrar stúlku í Dóminíska Lýðveldinu í fyrra samkvæmt upplýsingum frá Alþjóðadeild Ríkislögreglustjóra. Hrafnhildur Lilja Georgsdóttir var myrt í september í fyrra á herbergi á hóteli þar sem hún starfaði sem framkvæmdastjóri. Hún var stungin með hníf og lamin í höfuðið með barefli.

Alþjóðadeild Ríkislögreglustjóra sagði í samtali við fréttastofu í morgun að engin niðurstaða hefði fengist í rannsókn á morði stúlkunnar. DV hefur eftir Georgi Páli Kristinssyni, föður Hrafnhildar, að formlegri rannsókn á morðinu væri hætt án þess að morðinginn hafi fundist. Þrír hafi þó enn réttarstöðu grunaðra samkvæmt lögregluskýrslu sem hann fékk í hendurnar á fimmtudag.

Þær upplýsingar fengust frá utanríkisráðuneytinu að skýrsla um rannsóknina hefði borist í gær. Þrátt fyrir að formlegri rannsókn væri lokið verður málinu haldið opnu ef að frekari vísbendingar skyldu berast. Ræðismaður Íslands í Dóminíska lýðveldinu, sem hefði verið í vikulegu sambandi við lögregluna þar í landi, myndi áfram fylgjast með gangi mála.

Fréttastofa hefur ekki náð tali af föður Hrafnhildar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×