Handbolti

HM: Makedónía áfram eftir sigur á Rússum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Varnarmenn Makedóníu taka hér hart á Aleksey Rastvortsev, leikmanni rússneska landsliðsins.
Varnarmenn Makedóníu taka hér hart á Aleksey Rastvortsev, leikmanni rússneska landsliðsins. Nordic Photos / AFP
Makedónar gerðu sér lítið fyrir og unnu góðan sigur á Rússum, 36-30, í lokaumferð riðlakeppninnar á heimsmeistaramótinu í handbolta sem fer fram í Króatíu.

Þar með er Makedónía komið áfram í milliriðlakeppnina en rússneski björninn, sem er nú orðinn frekar lúinn, situr eftir með sárt ennið.

Makedónía er því með sex stig í C-riðli rétt eins og Pólverjar sem mæta heimsmeisturum Þýskalands síðar í dag. Ef Pólland tapar þeim leik tryggir Makedónía sér annað sæti riðilsins en nú þegar er ljóst að það fer með tvö stig með sér í milliriðlakeppnina.

Kiril Lazarov, leikmaður RK Zagreb í Króatíu, hefur farið á kostum á mótinu og var engin breyting þar á í dag. Hann skoraði þrettán mörk og var markahæstur í liði Makedóníu en Naumce Mojsovski kom næstur með níu mörk. Lazarov er nú markahæsti leikmaður mótsins með 53 mörk.

Konstantin Igropulo var markahæstur Rússa með þrettán mörk en Timur Dibirov kom næstur með átta.

Makedónía vann Ísland í undankeppni heimsmeistaramótsins eru án vafa eitt af spútnikliðum mótsins í Króatíu.

Einum öðrum leik er lokið á HM í handbolta í dag. Argentína vann 36-16 sigur á Ástralíu í A-riðli.

Ástralar töpuðu öllum fimm leikjunum sínum á mótinu með samtals 130 marka mun eða 26 marka mun að meðaltali.


Tengdar fréttir

HM-samantekt: Óvænt tap Norðmanna

Norðmenn naga sig í handarbökin í kvöld eftir að þeir töpuðu óvænt fyrir Serbíu á heimsmeistaramótinu í handbolta sem fer fram í Króatíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×