Fótbolti

Balotelli og Vieira urðu fyrir aðkasti

Mario Balotelli
Mario Balotelli AFP

Virtur ítalskur blaðamaður fullyrðir að tveir af leikmönnum Inter Milan hafi orðið fyrir kynþáttaníð í síðari leik Inter og Manchester United í Meistaradeildinni í síðustu viku.

Gianni Mura á La Repubblica segir að stuðningsmenn United hafi kallað ófögur orð í átt að Mario Balotelli og Patrick Vieira hjá Inter og segir að ef vandlega sé hlustað á sjónvarpsupptökur af leiknum megi heyra stuðningsmennina framkalla apahljóðin alræmdu.

"Ensku stuðningsmennirnir beita líka kynþáttaníð og hann er engu skárri en annars staðar. Stuðningsmenn United framkölluðu apahljóð um leið og Vieira og Balotelli snertu boltann og ég er mjög forvitinn að vita hvort Knattspyrnusamband Evrópu ætlar að aðhafast í málinu. Hægt er að sjá þetta með því að skoða sjónvarpsupptöku frá leiknum. Ef ekkert er gert í þessu er greinilegt að baráttan gegn kynþáttaníð í knattspyrnu er ekki annað en sjónvarpsauglýsingar," segir Mura í blaðagrein um helgina.

Fleiri miðlar á Ítalíu hafa vakið athygli á málinu, en breskir miðlar minnast hvergi á það. Þeir hafa hinsvegar vakið athygli á því að Didier Drogba hjá Chelsea hafi orðið fyrir aðkasti í Tórínó í útileik Chelsea gegn Juventus.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×