Handbolti

Viggó: Ósvífni og viðbjóður

Elvar Geir Magnússon skrifar
Viggó Sigurðsson.
Viggó Sigurðsson.

Mútumál skekur þýska handboltann. Forráðamenn Kiel eru grunaðir um að hafa mútað pólskum dómurum fyrir úrslitarimmu Meistaradeildarinnar árið 2007.

Kiel mætti öðru þýsku liði, Flensburg, í úrslitum. Fyrri leik liðanna í lauk með jafntefli, 28-28. Kiel vann svo síðari leikinn, 29-27, og mun hafa mútað pólskum dómurum þess leiks.

Viggó Sigurðsson þjálfaði í mörg ár í Þýskalandi og hefur oft gagnrýnt forystumenn í handboltanum fyrir að taka ekki á spillingu í handboltaheiminum.

„Þetta er búið að vera viðvarandi mjög lengi og verið krabbamein á handboltanum. Jafnvel eftirlitsmenn sem hafa komið héðan hafa bent manni á dómarapör sem hægt er að múta. Þessar fréttir eru enginn nýr sannleikur fyrir mér heldur staðfesting á því sem ég hef haldið fram," sagði Viggó í kvöldfréttum á Stöð 2.

Noka Serdarusic þjálfaði Kiel þegar þetta atvik kom upp en hann hætti þar nú í vor. Alfreð Gíslason tók við hans starfi. Til stóð að Serdarusic myndi taka við þjálfun Rhein-Neckar Löwen í sumar en hann hætti við það og bar fyrir sér heilsufarsástæður.

„Það er vitneskja um að þjálfari Kiel rétti pólsku dómurunum peningaumslag. Þetta kemur frá þjálfaranum sjálfum sem ætlaði að notfæra sér þetta til að ná í Karabatic og sagðist hafa á Kiel ákveðna hengingaról. Rhein-Neckar Löwen hafði bein í nefinu og rifti samningum við hann og kærðu málið," segir Viggó.

„Ég hef margoft gagnrýnt dómara og störf þeirra. Eftirlit með dómurum er í molum og það á við hér á landi líka. Við erum að þvælast með dómarapör sem eru óhæf til að dæma í 1. deild ár eftir ár. Ég hefði viljað taka annan vinkil á þessum málum og fá meiri fagmennsku í þetta."

„Ef við tjáum okkur eitthvað um þessi mál þá erum við bara dæmdir í leikbann sem er hreint lögbrot þar sem við erum bara í okkar vinnu. Það er reynt að þagga alla umræðu niður en sem betur fer er þetta komið upp á yfirborðið og þetta er ósvífni og viðbjóður."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×