Eiður Smári Guðjohnsen og liðsfélagar hans í Barcelona eru sagðir hafa fengið væna bónusgreiðslu fyrir 6-2 sigurinn á Real Madrid í upphafi síðasta mánaðar.
Spænska dagblaðið Sport fullyrðir í dag að Joan Laporta hafi boðið öllum 25 leikmönnum liðsins 200 þúsund evrur, rétt tæpar 36 milljónir króna, ef þeim myndi takast að sigra í leiknum.
Óhætt er að segja að leikmenn Börsunga hafi svarað kallinu en þetta var eitt versta tap Madrídinga í „El clasico" auk þess sem þetta gerði nánast út um vonir þeirra um að ná Barcelona á toppi deildarinnar.
Eiður Smári var á varamannabekknum í þessum leik og kom ekki við sögu í honum.
Sport fullyrðir einnig að leikmenn hafi fengið aðra eins upphæð fyrir að sigra í Meistaradeild Evrópu sem og spænsku bikarkeppninni. Það þýðir að félagið greiddi leikmönnum samtals átta milljónir evra í bónusgreiðslur. Það sé mikið en menn sjái ekki eftir þeim pening enda árangurinn glæsilegur.