Tvö mörk frá Lionel Messi og eitt frá Zlatan Ibrahimovic tryggðu Barcelona dýrmætan útisigur á Deportivo La Coruna í spænsku úrvalsdeildinni í kvöld. Messi kom Barcelona tvisvar yfir í leiknum og Zlatan innsiglaði síðan sigurinn í blálokin.
Messi skoraði fyrra markið sitt á 27. mínútu með laglegu skoti fyrir utan teig eftir sendingu frá Dani Alves en seinna markið skoraði hann með flottum skalla á 80. mínútu eftir fyrirgjöf frá varamanninum Pedro Rodriquez. Zlatan skoraði síðan þriðja mark Börsunga með flottu skoti á 88. mínútu eftir sendingu Eric Abidal.
Adrian Lopez náði að jafna leikinn á 39. mínútu eftir klaufaleg mistök í Barcelona-vörninni. Það stefndi lengi vel í það að þessi mistök myndu kosta Barcelona tvö stig en þá var komið að Messi og Zlatan sem tryggðu sigurinn.
Barcelona er þar með með fimm stiga forskot á Real Madrid í toppsætinu en liðið hefur leikið leik meira þar sem Börsungar eru á leiðinni á Heimsmeistarakeppni félagsliða og flýttu því einum leik hjá sér.