Innlent

Lífeyrissjóðir taki þátt í kaupum á HS Orku

Talsverð ólga er meðal áhrifafólks innan Vinstri grænna vegna áforma Magma Energy um að eignast stóran hlut í HS Orku á móti Geysi Green Energy.Fréttablaðið/Valli
Talsverð ólga er meðal áhrifafólks innan Vinstri grænna vegna áforma Magma Energy um að eignast stóran hlut í HS Orku á móti Geysi Green Energy.Fréttablaðið/Valli

Ríki og sveitarfélög hafa mikla hagsmuni af því að arður af auðlindum á borð við jarðvarma á Suðurnesjum verði eftir í landinu, segir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra. Hann vill ekki að hlutur Orkuveitu Reykjavíkur í HS Orku verði seldur einka­aðilum.

„Ég geld mikinn varhug við því að menn hendi sér út í einkavæðingu á þessum gríðarlega mikilvægu undirstöðum í okkar hagkerfi sem þarna eru,“ segir Steingrímur.

Kanadíska orkufyrirtækið Magma Energy hefur gert tilboð í kaup á 16,6 prósenta hlut OR í HS Orku. Fyrirtækið vill einnig kaupa 15,4 prósenta hlut í HS Orku sem OR samdi um að kaupa af Hafnar­fjarðar­bæ. Samkeppniseftirlitið hefur bannað OR að eiga meira en tíu prósent í samkeppnisaðila.

„Ég ímynda mér að það væri hægt að fá tímabundna undanþágu frá því, þó að samkeppnisyfirvöld samþykktu það ekki til frambúðar. Ég sé ekki að það færust himinn og jörð í samkeppnismálum þó að menn fengju eitthvert ráðrúm til að skoða þetta,“ segir Steingrímur.

Fulltrúar Orkuveitunnar, borgar­stjóri og formaður borgarráðs, hittu fjármálaráðherra í gærkvöldi. Steingrímur segir að bæði ríki og borg hafi lýst vilja til að skoða málið nánar, þó án skuldbindinga. Aðrir aðilar gætu komið að því.

Guðlaugur G. Sverrisson, stjórnar­formaður OR, segir fundinn hafa verið ganglegan. Ríkisstjórnin hafi óskað eftir svigrúmi til að skoða málið. Tilboð Magma rennur út í dag, en Guðlaugur segist þegar hafa rætt við fulltrúa fyrirtækisins um lengri frest. Ákvörðun þar um hafði ekki verið tekin þegar blaðið fór í prentun. „Við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að skapa þetta svigrúm fyrir ríkis­stjórnina.“

Steingrímur segir marga velta því fyrir sér hvað verði um auðlindina og arðinn af nýtingu hennar, komist hluturinn í hendur kanadísks fyrirtækis. Steingrímur segir ekki útilokað að aðrir innlendir aðilar komi að kaupum á HS Orku, til að mynda lífeyrissjóðirnir.

Guðlaugur segir Orkuveituna neydda til að selja í HS Orku í ljósi úrskurðar Samkeppniseftirlitsins og óþægilegt sé að reynt sé að gera tilboð Magma Energy tortryggilegt, en söluferlið hafi verið mjög opið. brjann@frettabladid.is

kolbeinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×