Fótbolti

Staða Klinsmann í hættu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jürgen Klinsmann, stjóri Bayern München.
Jürgen Klinsmann, stjóri Bayern München. Nordic Photos / Bongarts
Þýskir fjölmiðlar spá því að staða Jürgen Klinsmann, knattspyrnustjóra Bayern München, sé í mikilli hættu eftir að liðið beið afhroð í Barcelona í Meistaradeild Evrópu í gær.

Bayern er fallið úr leik í þýsku bikarkeppninni og er í fjórða sæti þýsku úrvalsdeildarinnar, þremur stigum frá toppsætinu þegar átta leikir eru eftir. Um síðustu helgi tapaði Bayern fyrir toppliði Wolfsburg, 5-1.

Bayern var svo heppið að sleppa við 4-0 tap fyrir Barcelona í gær þar sem Lionel Messi og félagar gerðu ítrekað grín að varnarmönnum þýska liðsins.

„Það ættu engar ákvarðanir að vera teknar í dag," sagði Karl-Heinz Rummenigge sem ásamt Uli Höness eru í forsvari fyrir félagið.

„Þetta var mikil skömm fyrir okkur en það er best að sofa á svona hlutum og taka svo skynsamlegar ákvarðanir."

Rummenigge hefur verið stuðningsmaður Klinsmann á leiktíðinni en forseti félagsins, Franz Beckenbauer, hefur ekki verið eins jákvæður í hans garð.

„Þetta var algjör ringulreið. Þeir litu út eins og skólastrákar. Fyrri hálfleikurinn var sá versti sem ég hef séð hjá Bayern," sagði hann í sjónvarpsviðtali eftir leikinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×