Nicklas Bendtner, leikmaður Arsenal, var valinn knattspyrnumaður ársins 2009 í Danmörku. Bendtner fékk verðlaunin afhent í Kaupmannahöfn í gær.
Það voru danskir knattspyrnuáhugamenn sem völdu Bendtner. Hann stóð sig vel með danska landsliðinu sem tryggði sér farseðilinn á HM næsta sumar.
Mark hans gegn Portúgal í 1-1 jafnteflisleik var þess utan valið mark ársins.
„Þetta er gríðarlegur heiður. Ég vil þakka öllum þeim sem kusu mig," sagði Bendtner sem var á frumlegu nótunum í ræðunni.
„Ég vil einnig þakka foreldrum mínum sem hafa aldrei misst trúna á mig. Ég vil einnig þakka þjálfurunum mínum sem og liðsfélögum sem sáu til þess að ég næði þessum árangri."
Peter Schmeichel var við sama tækifæri tekinn inn í heiðurshöll danskra fótboltamanna. Hann er aðeins sjötti leikmaðurinn sem kemst þangað inn.