Erlent

Miðvikudagar verri en mánudagar

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Hugsanlega fer vont orð af mánudögum að ósekju.
Hugsanlega fer vont orð af mánudögum að ósekju.
Eftir að hafa rannsakað meira en 2,4 milljónir vefdagbóka, þar á meðal Twitter, hafa prófessorarnir Christopher Danforth og Peter Dodds við Vermont háskóla í Bandaríkjunum komist að því að miðvikudagur er versti dagur vikunnar.

Þeir greindu skilaboð fólks á vefnum eftir dögum og gáfu þeim stig á kvarðanum núll til níu eftir því hversu jákvæð þau voru.

Orð á borð við frjáls, fjör og regnbogi fengu öll tölugildi yfir átta, á meðan orð eins og svíkja, grimmur og hatur fengu öll falleinkunn.

Eins og við mátti búast voru skilaboð fólks um helgar ansi jákvæð. Það kom rannsakendunum hins vegar á óvart að mánudagar, sem hafa á sér hálfgert óorð, voru næst hamingjuríkustu dagar vikunnar, meðal annars því ánægja helgarinnar situr þá enn í fólki.

Sú ánægja hefur hins vegar almennt dvínað þegar kemur að miðvikudegi.

„Fólk er nokkuð ánægt um helgar, en á miðvikudögum er fólk leiðast," segir Danforth í samtali við breska blaðið Telegraph.

Hann segir líðan fólks endurspeglast í skilaboðunum sem það sendir frá sér. Með tilkomu netsins og miðla á borð við Twitter, þar sem fólk er stöðugt að senda frá sér skilaboð, hefur fræðimönnum tekist að fá margfalt stærra úrtak til að greina en áður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×