Usain Bolt segir að honum hafi verið kennt að vefja hasssígarettur sem krakki og að hann hafi prófað að reykja hass, rétt eins og allir í heimalandi hans í Jamaíku.
Þetta kemur fram í þýska dagblaðinu Bild í dag. Blaðamaður mun hafa hitt Bolt á skemmtistað í Kingston, höfuðborg Jamaíku. Hann segir að Bolt hafi verið að drekka blöndu af Guinness-bjór og orkudrykknum Red Bull.
„Á Jamaíku lærir maður sem barn að vefja hasssígarettur. Allir hafa prófað hass - líka ég. En ég var mjög ungur."
„Fjölskyldan mín og vinir reykja ekki og ég umgengst ekki lengur fólk sem reykir."
Bolt bætti heimsmetin í 100 og 200 metra hlaupum á Ólympíuleikunum í Peking í sumar.