Fótbolti

Orðinn leiður á tuðinu í Lehmann

Jens Lehmann hikar aldrei við að láta skoðanir sínar í ljós
Jens Lehmann hikar aldrei við að láta skoðanir sínar í ljós NordcPhotos/GettyImages

Markvörðurinn Tim Wiese hjá Werder Bremen í þýsku úrvalsdeildinni er búinn að fá sig fullsaddan af því að lesa yfirlýsingar kollega síns Jens Lehmann hjá Stuttgart.

Wiese er einn þeirra markvarða sem eru inni í myndinni með að verja mark Þjóðverja á HM næsta sumar, en hinn gamalreyndi Lehmann hefur ekki hikað við að segja skoðanir sínar á arftökum sínum í landsliðinu.

Lehmann lét í veðri vaka að þeir Wiese, Rene Adler og Robert Enke, hefðu ekki það sem til þyrfti til að verja landsliðsmarkið á stórmóti og sagði ekki útilokað að þýska landsliðið þyrfti á sér að halda þó hann hafi lagt landsliðsskóna á hilluna eftir EM í fyrra.

Wiese hefur nú svarað Lehmann fullum hálsi. "Þetta er mesta synd, því Lehmann var ágætis náungi áður en hann fór til Stuttgart," sagði Wiese í samtali við Bild í Þýskalandi.

"Nú eyðir hann hinsvegar öllum sínum tíma í að ögra fólki og hann er farinn að fara í taugarnar á mér. Hann er ofmetinn og útbrunninn. Hann ætti frekar að minna sig á sjálfsmarkið sem hann skoraði á móti Bochum," sagði Wiese.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×