Fótbolti

Magath fór til hæstbjóðanda

AFP

Það er ekki á hverjum degi sem menn í íþróttaheiminum viðurkenna að peningar hafi ráðið miklu um ákvarðanir þeirra. Það gerir hinsvegar þjálfarinn Felix Magath í Þýskalandi.

Magath er þjálfari Wolfsburg en hefur ákveðið að rifta samningi sínum við félagið ári áður en hann rennur út og taka við Schalke þann 1. júlí í sumar.

Magath segist hafa náð öllum sínum markmiðum með Wolfsburg en neitar ekki að peningarnir sem Schalke veifaði framan í hann hafi ráðið miklu.

"Við erum atvinnumenn og þetta snýst allt um peninga - allt annað er þvættingur," sagði Magath.

Wolfsburg er í toppsæti deildarinnar með þriggja stiga forystu þegar fjórar umferðir eru eftir.

Stuðningsmenn liðsins eru afar óhressir með þessa ákvörðun þjálfarans og harma að hann sé að fara frá liðinu þó hann geri það jafnvel að þýskum meistara í fyrsta sinn í sögu félagsins.

Magath lætur sér fátt um finnast. "Wolfsburg er ekki fyrsti klúbburinn sem ég ríf upp, en í fortíðinni hefur mér reyndar oft verið sparkað þrátt fyrir að hafa byrjað vel. Af fenginni reynslu trúi ég ekki lengur á loforð um að maður geti fengið framtíðarstarf í fótboltanum," sagði Magath.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×