Innlent

Veitingamenn neita ásökunum um svik

Einar Bárðarson
Einar Bárðarson
„Mér finnst eðlilegt að hann biðjist afsökunar,“ segir Steinþór Jónsson á Hótel Keflavík, sem er ósáttur við yfirlýsingar Níelsar S. Olgeirssonar, formanns Matvæla- og veitingafélags Íslands, um meinta svarta starfsemi í veitingageiranum á Suðurnesjum.

Í Fréttablaðinu í gær sagði Níels meðal annars að svo virtist sem það væri regla á Reykjanesi að menn færu ekki að lögum við rekstur veitingahúsa. Margir veitingamenn á svæðinu sem Fréttablaðið ræddi við í gær segja að Níels ætti að biðjast afsökunar á alhæfingum um heilan hóp veitingamanna.

„Okkur finnst ósmekklegt af forsvarsmanni Matvís að þjófkenna heila stétt af fólki sem er að berjast við erfiðar aðstæður,“ segir Einar Bárðarson, sem rekur skemmtistaðinn Officeraklúbbinn á Keflavíkurflugvelli.

Einar og fleiri veitingamenn segjast telja eðlilegt að Níels nafngreini veitingastað á Reykjanesi sem hann sagði í Fréttablaðinu og í eigin félagsblaði, Matvís, að færi ekki að lögum. „Hann virðist mjög argur yfir alvarlegum brotum, sem eru svívirðileg ef rétt reynast, en að fara yfir alla línuna og segja menn vera með svarta peninga er ansi harkalegt og dónaskapur,“ segir Einar og undir það tekur Örn Garðars í Veisluþjónustunni Soho.

„Það þarf að komast á hreint hver þetta er því það er ekki gott að vera bendlaður við þetta,“ segir Örn og fullyrðir að þótt sumir veitingamenn á Suðurnesjum hafi lent í erfiðleikum sé ástandið þar ekki verra en annars staðar.

Steinþór Jónsson segir fullyrðingar Níelsar skelfilegar. „Mér finnst mjög sérstakt að þetta skuli gert af einstaklingi í þessari stöðu. Þetta er ekki í neinum takti við það sem ég þekki. Þessi alhæfing getur ekki átt rétt á sér – það er alveg á kristaltæru.“

Níels kveðst standa við fyrri yfirlýsingar og ætlar ekki að biðjast afsökunar. „Ég held að þetta svæði sé svolítið sýkt af veru varnarliðsins. Þeir hugsa öðruvísi en við. Ég veit að það er vont ef menn liggja allir undir grun. En ef veitingamenn vilja skal ég gera tilraun til þess í næsta Matvísblaði að hvítþvo þá sem eru hreinir – ef þeir finnast,“ segir formaður Matvís. gar@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×