Erlent

Kaupa meiri tónlist en hinir

Ólöglegt niðurhal Þeir sem stela tónlist af netinu kaupa tónlist fyrir 15.700 krónur á ári. Hinir kaupa fyrir níu þúsund krónur.Fréttablaðið/valgarð
Ólöglegt niðurhal Þeir sem stela tónlist af netinu kaupa tónlist fyrir 15.700 krónur á ári. Hinir kaupa fyrir níu þúsund krónur.Fréttablaðið/valgarð

Þeir sem stela tónlist af netinu kaupa líka tónlist fyrir jafnvirði 15.700 króna að meðaltali á ári. Þeir sem segjast ekki stunda ólöglegt niðurhal kaupa tónlist fyrir rúmlega níu þúsund krónur á ári. Þetta kemur fram í nýrri könnun í Bretlandi, sem BBC greinir frá.

Af þeim sem tóku þátt í könnuninni kvaðst tæplega einn af hverjum tíu frá sextán ára aldri til fimmtugs stela tónlist af netinu. Hins vegar sögðust átta af hverjum tíu í sama aldursflokki kaupa geisladiska, hljómplötur og tónlist á MP3-formi.

Alls tóku 1.008 manns þátt í vefkönnuninni, sem Demos annaðist.

Helmingur þátttakenda sagðist hlusta á tónlist á Youtube og 22 prósent hlustuðu á vefvarp. Aðeins fjögur prósent þátttakenda kváðust nota skráar­skiptaforritið Napster, sem eitt sinn bar höfuð og herðar yfir önnur slík forrit.

75 prósent svarenda á aldrinum 16 til 24 ára sögðust reiðubúnir til að borga fyrir tónlist á MP3-formi. Óskaverð svarenda fyrir eitt lag var 45 pens, jafnvirði 92 króna. Aðeins tvö prósent voru reiðubúin að greiða meira en pund, 204 krónur.

Sem dæmi má nefna að vinsælasta lagið í Bretlandi um þessar mundir, Fight for this Love með Cheryl Cole, kostar 203 krónur hjá itunes og 162 krónur hjá Amazon. - bs






Fleiri fréttir

Sjá meira


×