Fótbolti

Keller: Við viljum nota Eið Smára sem framherja

Ómar Þorgeirsson skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen.
Eiður Smári Guðjohnsen. Mynd/E. Stefán

Marc Keller, framkvæmdarstjóri Mónakó, tjáir sig um stöðu mála hjá franska félaginu í viðtali við dagblaðið Nice-Matin og þar ræðir hann meðal annars um komu Eiðs Smára til félagsins.

„Eiður Smári var okkar fyrsti kostur fyrir framherja í félagaskiptaglugganum og því erum við hæst ánægðir með að fá hann til félagsins. Við höfum átt gott samband við Barcelona í gegnum tíðina og það hjálpaði vissulega til sem og reyndar vilji leikmannsins til að koma til Mónakó.

Þegar við ræddum við hann fundum við strax fyrir miklum vilja og hungri af hans hálfu og það heillaði okkur og við vildum því strax fá hann til þess að spila í stöðu framherja," segir Keller sem vonast til þess að Mónakó rétti úr kútnum eftir dapurt gengi undanfarin ár.

„Franska 1. deildin er mjög jöfn og fyrir utan fjögur stærstu félögin, Lyon, Bordeaux, Marseille og PSG, þá er ekki mikið sem ber á milli hjá þeim félögum sem eru á bilinu í 5.-13. sæti deildarinnar.

Ég vonast hins vegar til þess að Mónakó nái nú að skilja sig örlítið frá þessum áðurnefnda hópi félaga og nálgist topp fjögur félögin. Við viljum fá fleiri áhorfendur til þess að mæta á völlinn og við gerum okkur grein fyrir því að það gerist aðeins ef góðri spilamennsku og jákvæðum úrslitum," segir Keller.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×