Handbolti

Slepptum út heilli nótt

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari.
Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari. Mynd/Stefán
Íslenska handboltalandsliðið sneri aftur til landsins frá Makedóníu í gær eftir langt og strangt ferðalag.

Ísland vann í fyrrakvöld glæsilegan sigur á Makedóníu í undankeppni EM 2010. Leiknum lauk um klukkan 22 að staðartíma en leikmenn og aðrir sem fylgdu liðinu þurftu að leggja af stað út á flugvöllinn í Skopje strax klukkan þrjú um nóttina.

„Við náðum ekkert að sofa eftir leikinn. Við misstum einfaldlega eina nótt út," sagði Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari við Fréttablaðið í gær.

Frá Skopje var flogið til Búdapest, þaðan til Frankfurt og loks heim til Íslands.

„Þetta var 15-16 tíma ferðalag og óhætt að segja að við séum nokkuð þreyttir."

Hann sagði þó að menn hafi gert þetta með glöðu geði eftir sigurinn góða í fyrrakvöld. Hann var sæt hefnd fyrir tapið gegn Makedónum í undankeppni HM í Króatíu þar sem Ísland tapaði.

„Við vorum á sama hóteli nú og í fyrra og ég man vel hvað mér leið hræðilega eftir leikinn í fyrra. En nú var tilfinningin auðvitað allt önnur og betri."

Liðið hefur í dag undirbúning sinn fyrir leikinn gegn Eistlandi sem fer fram á sunnudaginn á Ásvöllum. Guðmundur segir það mikilvægt að fólk fjölmenni á leikinn og það megi alls ekki vanmeta andstæðinginn.

„Þetta er ekki það veikur andstæðingur. Ég hef séð tvo leiki með liðinu og það getur vel spilað handbolta. Við megum alls ekki við því að vanmeta andstæðinginn og þurfum á stuðningi áhorfenda að halda."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×