Handbolti

Okkur voru aldrei boðnar mútur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gunnar Viðarsson og Stefán Arnaldsson á HM í Túnis árið 2005.
Gunnar Viðarsson og Stefán Arnaldsson á HM í Túnis árið 2005. Nordic Photos / Bongarts

Stefán Arnaldsson fyrrum handboltadómari segir að það hafi ekkert þýtt að bjóða dómurum frá Norðurlöndunum mútugreiðslur til að hagræða úrslitum leikja.

Í vikunni kom upp mál sem gæti orðið handboltanum til mikilla vandræða. Ásakanir um að Þýskalandsmeistarar Kiel hafi mútað pólskum dómurum sem dæmdu síðari úrslitaviðureign liðsins gegn Flensburg í úrslitum Meistaradeildar Evrópu árið 2007.

Spurður hvort að slíkt mál hafi nokkru sinni komið upp hjá þeim Stefáni og Gunnari Viðarssyni sem voru lengi meðal fremstu dómarapara heims sagði Stefán svo ekki vera.

„Það þýddi aldrei neitt að ræða við dómara frá Norðurlöndunum um þessi mál. Við fréttum því aldrei af neinu þessu líku," sagði Stefán.

„Hins vegar hefur þessari umræðu alltaf skotið upp kollinum af og til - að dómarar frá gömlu austurblokkinni væru í þessu."

„En ég hélt að stórlið eins og Kiel tækju ekki þátt í svona löguðu. Þetta eru bestu félagslið í heimi og ég hélt að þau færi ekki niður á svona plan. En hvað veit maður svo sem."

„Við dæmdum þó leik þessara liða í undanúrslitum Meistaradeildarinnar árið áður og þá var aldrei reynt að gauka neinu að okkur," sagði hann í léttum dúr.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×