Erlent

Lést þegar farsími sprakk í brjóstvasa

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Myndin tengist ekki þessari frétt.
Myndin tengist ekki þessari frétt.

Þeir sem telja farsíma með öllu hættulaus fjarskiptatæki ættu að endurskoða afstöðu sína. Starfsmaður í kjörbúð í Guangzhiu í Kína fékk að reyna þetta með afdrifaríkum hætti en hann hreinlega lést þegar sími hans sprakk með látum í vasa hans á föstudaginn.

Samstarfsfólk mannsins var enn felmtri slegið þegar Shin Min-dagblaðið ræddi við það og kvaðst litlar skýringar geta gefið á sprengingunni en hinn látni hafi nýverið skipt um rafhlöðu símans og verið nýbúinn að hlaða hana rafmagni.

Lögregla rannsakar nú hvort síminn eða rafhlaðan hafi hugsanlega verið falsaður varningur keyptur á svörtum markaði. Það eitt ætti að vera ástæða til að hugsa sig tvisvar um áður en maður kaupir sér farsíma í Kína að þetta er níunda farsímasprengingin sem vitað er um þar síðan árið 2002.

Shin Min-dagblaðið kemur neytendum til bjargar og birtir leiðbeiningar um hvernig best sé að nota farsíma án þess að stórslasa sig. Meðal þess sem þar er brýnt fyrir fólki er að forðast löng símtöl, sennilega eitthvað sem fleiri en Kínverjar geta tekið til sín.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×