Innlent

Ísland stækkar á hverju ári sem nemur hálfri Surtsey

Ísland stækkaði um 4,4 ferkílómetra, eða sem nemur þremur Surtseyjum, á sex ára tímabili frá árinu 2000 til 2006. Þetta kemur fram í nýrri kortlagningu Landmælinga á landgerðum, en samkvæmt henni er manngert yfirborð einungis 0,38 prósent af landinu.

Það sem einkennir Ísland umfram önnur lönd er ósnortin náttúra, eða það sem kallast náttúrlegar landgerðir í samevrópsku verkefni, sem Landmælingar unnu hérlendis. Mólendi, mosi og kjarr eru 35% Íslands, ógróið hraun og urðir 23%, hálfgróið land 13%, jöklar og fannir 11%, mýrar 6%, og stöðuvötn, ár og sjávarlón eru 2%. Landbúnaðarland er 2,4% en undir flokkinn manngert yfirborð teljast einungis 0,38% af landinu.

Gögnin sýna glöggt hversu öflugar íslensku jökulárnar eru í að stækka landið með framburði sínu, eins og menn geta ímyndað sér þegar skoðaðar eru myndir af aurugri Skeiðará í hlaupi, sem varð í tengslum við eldgos í Grímsvötnum fyrir fimm árum.

Á sex ára tímabili stækkaði Ísland þannig um 4,4 ferkílómetra, sem Landmælingar segja vegna breytinga á strandlínunni við ósa nokkurra stórra jökuláa. En hafið vinnur á móti og tekið er fram að þessi stækkun sé ekki varanleg og að hún gæti verið horfin þegar næsta mæling verður gerð.

Landaukinn vegna jökulfljótanna er engu að síður athyglisverður í samanburði við Surtsey en hún er um 1,6 ferkílómetrar að flatarmáli og byggðist upp í eldgosi á fjórum árum. Á árabilinu frá 2000 til 2006 bættu jökulfljótin við landi sem nemur eins og þremur Surtseyjum. Með öðrum orðum; þau stækkuðu Ísland um sem nemur eins og hálfri Surtsey á hverju ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×