Fótbolti

Sigurður: Sama starf og ég var með hjá Djurgården

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sigurður Jónsson sést hér stjórna æfingu hjá Grindavík.
Sigurður Jónsson sést hér stjórna æfingu hjá Grindavík. Mynd/Stefán
Sigurður Jónsson var í dag kynntur sem næsti þjálfari sænska C-deildarliðsins Enköping. Sigurður tekur við starfinu af fyrrum leikmanni Manchester United, Jesper Blomqvist, sem var rekinn eftir að liðið féll úr sænsku 1. deildinni í haust.

„Þetta er nákvæmlega sama starf og ég var með hjá Djurgården. Þetta mun snúast um að vinna með einstökum leikmönnum og hjálpa þeim að verða betri knattspyrnumenn. Mitt verkefni er að tryggja það að leikmenn hjá félaginu fái sín tækifæri til að sýna í hvað þeim býr,"sagði Sigurður í viðtali á heimasíðu Enköping.

„Ég hlakka til að takast á við þess áskorun og að vinna í að gera þessa stráka að betri knattspyrnumönnum. Það er samt undir þeirra vilja komið hvort þeir vilja stíga þetta skref og verða betri. Ég mun taka þetta verkefni alvarlega og ætla að eyða miklum tíma í það," sagði Sigurður.

„Það eru margir ungir leikmenn í liðinu og ég hef verið í svipaðri stöðu heima á Íslandi," segir Sigurður og lýsir sjálfum sér sem kröfuhörðum þjálfara sem þykir vænt um leikmenn sína.

„Við munum fyrst og fremst æfa mjög vel og undirbúa menn sem best fyrir tímabilið. Síðustu tvö ár hafa verið slök hjá liðinu og við verðum að efla trúna í liðinu þannig að strákarnir geti farið að vinna leiki að nýju. Við verðum að finna réttu karakterana í það verkefni," sagði Sigurður við heimasíðu Enköping.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×