Það er útlit fyrir æsispennandi lokasprett á toppi þýsku úrvalsdeildarinnar en aðeins tvö stig skilja að efstu fjögur lið deildarinnar.
Topplið Wolfsburg steinlá fyrir Stuttgart á útivelli, 4-1. Fyrir leiki dagsins var Wolfsburg með þriggja stiga forystu á Bayern München en liðin eru nú jöfn að stigum eftir að Bayern vann 3-1 sigur á Cottbus á útivelli.
Wolfsburg og Bayern eru með 60 stig á toppnum en næst kemur Hertha Berlín með 59 stig en liðið vann 2-0 sigur á Bochum í dag.
Stuttgart er svo í fjórða sætinu með 58 stig.
Jose Ernesto Sosa, Martin Demichelis og Lukas Podolski skoruðu mörk Bayern í dag. Franck Ribery var varamaður í leiknum og kom inn á á 56. mínútu.

