Erlent

Tveggja metra snjór truflaði ekki flug í Helsinki

Óli Tynes skrifar
Flugvöllurinn í Helsinki.
Flugvöllurinn í Helsinki.

Samgöngutruflanirnar sem smá snjóföl hefur valdið í Bretlandi hefur orðið til þess að Bretar eru farnir að líta í kringum sig og skoða hvernig aðrar þjóðir fara að. Þeir urðu sem þrumu lostnir þegar þeir fréttu að á flugvellinum í Helsinki hefði allt gengið eðlilega fyrir sig síðasta vetur þegar snjórinn var tæplega tveggja metra djúpur. Nú í desember hefur talsvert snjóað í Helsinki og snjórinn tæplega eins metra djúpur. Þetta hefur ekki valdið neinum seinkunum á flugi, hvað þá að flugvellinum hafi verið lokað. Flugvellinum var síðast lokað árið 2003 og þá í hálfa klukkustund.

Voldugur floti

BBC fréttastofan talaði við Aniku Kala talskonu flugvallarins sem sagði að það liti út fyrir að þetta yrði dálítið snjóþungur vetur. Hún sagði þó að þau hefðu engar áhyggjur, þar sem þau væru vel undirbúin. Í Helsinki er 250 bíla floti af snjóplógum, sópurum, snjóblásurum og jeppum sem mæla hálku á flugbrautum. Flugvöllurinn getur einnig kallað til flota af vörubílum sem keyra snjóinn á sérstakt haugasvæði innan flugvallarins. Síðasta vetur fóru þessir vörubílar 7000 ferðir með snjó af flugbrautum og akstursbrautum.

Þarf bara aðeins meira á Heathrow

Á flugvellinum er sérstök snjómiðstöð sem getur kallað inn varalið af mannskap ef þurfa þykir. Þessi miðstöð vinnur í nánu sambandi við flugumferðarstjóra, hlaðmenn og flugfélögin. Anika kala viðurkenndi að það sé talsverður munur á Helsinki og Heathrow flugvelli í Lundúnum. Í Helsinki eru 600 lendingar og flugtök á dag, en á Heathrow eru þau helmingi fleiri. „En prinsipið er nú eiginlega það sama," sagði sú finnska. „Það þarf bara heldur meira af því sama á stærri flugvelli."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×