Innlent

Heiðmerkurhrottar dæmdir fyrir mannrán og líkamsárás

Heiðmörk. Mennirnir skildu fórnarlamb sitt eftir í Heiðmörk.
Heiðmörk. Mennirnir skildu fórnarlamb sitt eftir í Heiðmörk.

Fjórir karlmenn á þrítugsaldrinum voru dæmdir í Héraðsdómi Reykjaness fyrir að ræna manni af heimili hans í Hafnarfirði, ganga í skrokk á honum og skilja hann eftir í Heiðmörk.

Afbrotið átti sér stað í júlí 2008. Mennirnir bönkuðu þá upp á hjá brotaþola og byrjuðu strax að ganga í skrokk á honum. Þeir drógu hann út úr íbúðinni og þvinguðu hann inn í Rage Rover bifreið þar sem þeir héldu áfram að lemja manninn.

Þaðan óku þeir upp í Heiðmörk og héldu áfram að ganga í skrokk á fórnarlambi sínu. Maðurinn hlaut meðal annars rifbeinsbrot, brot á augntóft auk margvísislegra áverka á líkamanum.

Ástæðan fyrir árásinni voru meint svik vegna bílaviðskipta við einn árásamannanna. Það er þó óljóst með hvaða hætti þau svik hafi átt sér stað samkvæmt dómsorði.

Eftir að hrottarnir skildu fórnarlambið sitt eftir í Heiðmörk gekk hann stystu leið til byggða. Þegar hann var kominn inn í Garðarbæ, braut hann rúðu á glugga Bónus verslunar til þess að gera vart við sig. Lögreglan mætti stuttu síðar og fann manninn alblóðugan og illa til reika.

Mennirnir fjórir játuðu brot sín. Þeir hlutu dóma frá þremur mánuðum upp í fimmtán mánaða fangelsi. Allir dómarnir voru skilorðsbundnir að hluta. Þrír mannanna þurfa þó að afplána þriggja mánaða refsingu í grjótinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×