Erlent

Mikið öngþveiti á helstu flugvöllum í Norður Evrópu

Mikið öngþveiti ríkir nú á öllum helstu flugvöllum í norðanverðri Evrópu vegna vetrarhörkunnar sem ríkt hefur í álfunni undanfarna daga.

Í frétt á BBC segir að hundruðir flugfarþega hafi gist á Heathrow flugvelli í nótt en fólkið er á leið heim í jólafrí. Yfir 1.000 flugferðir voru blásnar af í gær á þýsku alþjóðaflugvöllunum við Frankfurt, Munich og Berlín.

Á Orly flugvelli við París tókst að halda þremur af fjórum flugbrautum vallarins opnum en þar var ákveðið að fella niður allrar styttri flugferðir og nota brautirnar til að koma á loft þeim vélum sem voru að fara í lengri flug.

Flugmálayfirvöld í Evrópu segja að sökum þess hve margir bíða nú eftir flugi muni ástandið ekki komast í eðlilegt horf fyrr en eftir jólin.

Flug til og frá Evrópu og hingað til lands hefur eðlilega raskast nokkuð og eru tafir á flesum leiðum. Engum ferðum hefur þó verið aflýst enn sem komið er.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×