Innlent

Finnst sjö ára bíll of gamall fyrir sveitastjórnina

Bifreið af þessari tegund, Honda Jazz, verður keypt fyrir sveitastjórn Rangárþings ytra
Bifreið af þessari tegund, Honda Jazz, verður keypt fyrir sveitastjórn Rangárþings ytra Mynd úr safni
Meirihlutinn í sveitastjórn Rangárþings ytra hefur samþykkt beiðni sveitastjóra um að keyptur verði sjö ára gamall bíll fyrir sveitarfélagið. Um er að ræða bifreið af tegundinni Honda Jazz sem kostar 800 þúsund krónur. Guðmundur Ingi Gunnlaugsson, fulltrúi sjálfstæðismanna, í sveitastjórn var á móti kaupunum og finnst eðlilegra að kaupa nýrri bíl.

Þetta kemur fram í Dagskránni - Fréttablaði Suðurlands.

Sveitastjórnin var með aðra bifreið á leigu sem þótti of dýr í rekstri og hefur henni því verið skilað til leigusala. Sveitastjórnarmenn og nefndarfólk hafa haft bifreið til umráða til að fara á milli staða vegna funda, svo dæmi sé tekið.

Guðmundur Ingi skýrir afstöðu sína í samtali við Dagskrána. „Bilinn sem til stendur að kaupa er gamall og er ólíklegur til að standa undir því verkefni sem honum er ætlað," segir hann. Tveir aðrir fulltrúar sjálfstæðismanna í sveitastjórn sátu hjá við afgreiðslu málsins. Meirihlutinn í Rangárþingi ytra er skipaður fulltrúum Á-lista, lista áhugafólks um sveitastjórnarmál.

Að mati Guðmundar er líklegt að þessi gamli bíll verði dýr í rekstri og þurfi mikið viðhald. „Mér fannst eðlilegast að fylgja minni sannfæringu og lagði til í minni umræðu, þó ég léti ekki bóka það, að a.m.k. yrði keyptir nýrri bíll sem væri líklegri til þess að valda þó ekki nema hluta af þeim verkefnum sem honum er ætlað að sinna," segir Guðmundur. Honum finnst þetta ekki rétt forgangsröðun þegar kemur að sparnaði.

„Sparnaður getur einmitt falist í því að setja aðeins meiri peninga í stofnkostnaðinn, en losna í staðinn við dýrt viðhald og óhagkvæman rekstur," segir Guðmundur í Dagskránni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×