Fótbolti

Andy Gray: Barcelona myndi basla í ensku úrvalsdeildinni

Henry Birgir Gunnarsson skrifar

Andy Gray, knattspyrnusérfræðingur Sky Sports, hefur í dag vakið heimsathygli fyrir ummæli sín um Argentínumanninn Lionel Messi og Barcelona.

Gray heldur því nefnilega fram að Barcelona yrði í basli í ensku úrvalsdeildinni og að Messi, sem er flestum talinn besti knattspyrnumaður heims, sé ekki nógu góður fyrir Stoke City.

"Messi myndi lenda í vandræðum á köldu kvöldi á Britannia-vellinum. Barcelona myndi líka lenda í vandræðum á Englandi því það er ekki vant því að spila gegn liðum eins og Stoke," sagði Gray er hann var að lýsa leik Man. City og Everton í gær.

Gray sagði einnig að bæði Messi og Ronaldo myndu ekki skora eins mikið í enska boltanum og þeir gera á Spáni. Ronaldo tókst samt að skora 31 mark í 34 leikjum með United leiktíðina 2007-08.

Þessi ummæli Gray hafa vakið hörð viðbrögð á samskiptasíðunum Facebook og Twitter þar sem Gray eru ekki vandaðar kveðjurnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×