Erlent

Brjóstagjöf er nauðsynlegri strákum en stelpum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Guð hjálp þeim, ef þetta eru strákar. Mynd/ AFP.
Guð hjálp þeim, ef þetta eru strákar. Mynd/ AFP.
Ný rannsókn sýnir að brjóstagjöf, á ákveðnu tímaskeiði í lífi barns, eykur greind drengja en ekki stelpna. Mælt hefur verið með því að barn sé á brjósti allt til sex mánaða aldurs. Ástæðan er bæði sú að næringin úr móðurmjólkinni er barninu holl og að brjóstagjöfin sjálf hefur jákvæð áhrif á heilsu bæði barns og móður.

Þá hafa rannsóknir hingað til bent til þess að brjóstagjöf hafi jákvæð áhrif á greind barna, en ekki hefur verið sýnt frammá að munurinn sé misjafn á milli kynja. En nú hafa ástralskir vísindamenn fundið út að drengir sem eru á brjósti standa sig betur í skóla en sá munur virðist ekki vera til staðar hjá stelpum. „Við vitum að brjóstamjólk inniheldur mikilvæg næringarefni fyrir þroska heilans og miðtaugakerfisins. En kynjamunurinn var sláandi," segir Wendy Oddy, einn rannsakendanna, í samtali við tímaritið New Scientist.

Danska dagblaðið Jyllands Posten vísar í rannsóknina og segir að drengir sem hafi fengið brjóstamjólk í minnst sex mánuði standi sig 9% betur í stræðfræði og skrift, 7% betur í stafsetningu og 6% betur í lestri en þeir drengir sem höfðu fengið þurrmjólk eða voru í styttri tíma á brjósti. Þessi munur kom ekki fram hjá stelpum.

Wendy Oddy telur að málið snúist um það að drengir séu næmari fyrir streitu og mótlæti þann tíma sem heilinn er að þroskast. Hún hefur líka grun um að drengi skorti estrogenmagnið sem verndar stelpur í upphafi ævi þeirra. Ef til vill fái drengirnir estrogenið með móðurmjólkinni. Þrátt fyrir þessar vangaveltur Oddy eru fræðimenn ekki á eitt sáttir um hver aðalástæðan fyrir mun á greind þeirra sem er gefið brjóst og þeim sem ekki er gefið brjóst. Hvort það sé spurning um mjólkina sjálfa eða náið samband milli móður og barns.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×