Innlent

Yngri en 10 ára þurfa fylgd í sund: Óánægja í Vesturbyggð

Hingað til hafa börn undir 8 ára þurft fylgdarmann í sund en frá áramótum verður miðað við tíu ára aldurinn
Hingað til hafa börn undir 8 ára þurft fylgdarmann í sund en frá áramótum verður miðað við tíu ára aldurinn
Bæjarstjórn Vesturbyggðar mótmælir breytingum á reglugerð um hollustuhætti á sund- og baðstöðum sem miðar að hækkun á aldursákvæði barna á sundstöðum úr 8 í 10 ár.

Mótmæli þess efnis voru bókuð á síðasta fundi bæjarstjórnarinnar. Áætlað er að reglugerðin taki gildi 1. janúar 2011 og fellur þar með eldri reglugerð úr gildi.

Samkvæmt þeim reglum sem taka gildi um áramótin er börnum yngri en 10 ára óheimill aðgangur að sund- og baðstöðum nema í fylgd með syndum einstaklingu 15 ára eða eldri. Viðkomandi má ekki hafa með sér fleiri en tvö börn, nema ef um er að ræða foreldri eða forráðamann.

Í bókuninni bæjarstjórnar Vesturbyggðar vegna breytinganna segir ennfremur:

„Mikilvægt er að brýna enn frekar umgengnisreglur um sundlaugar fyrir börnum og efla sundkennslu til að koma í veg fyrir slys á börnum í stað þess að grípa til takmarkana af þessu tagi. Það skýtur skökku við að þegar þjóðin er stöðugt að þyngjast sé aðgangur barna að sundlaugum takmarkaður. Sund er ein vinsælasta íþrótt Íslendinga og stuðlar að almennri heilsueflingu, ekki síst meðal barna og unglinga. Þessi ákvörðun vinnur gegn þeim markmiðum."

Bókunin varð lögð fram á fundi bæjarstjórnar þann 15. desember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×