Innlent

Almyrkvi í fyrramálið - tunglið verður rauðleitt

Það verður óneitanlega heldur jólalegt þegar tunglið fær á sig rauðleitan blæ í fyrramálið
Það verður óneitanlega heldur jólalegt þegar tunglið fær á sig rauðleitan blæ í fyrramálið Mynd: Stjörnufræðivefurinn Sky & telescope
Á vetrarsólstöðum, þriðjudagsmorguninn 21. desember, á stysta degi ársins, verður almyrkvi á tungli. Almyrkvinn hefst klukkan 07:40 og stendur yfir til klukkan 08:54. Ef veður leyfir sést myrkvinn vel frá Íslandi þótt tunglið sé tiltölulega lágt á lofti á vesturhimni, rétt fyrir ofan Óríon, milli fótleggja Tvíburanna og horna Nautsins.

Þetta kemur fram á Stjörnufræðivefnum. Seinast sást almyrkvi frá Íslandi aðfaranótt 21. febrúar 2008.

„Þegar tunglið er inni í alskugga jarðar fær það á sig rauðleitan blæ. Þennan lit má rekja til allra sólarlaga og sólarupprása sem umlykja jörðina á þessu augnabliki. Sólarljósið berst í gegnum lofthjúp jarðar sem tvístrar rauða litnum síðar en hinum litunum. Ljósið berst til tunglsins og gefur því rauðan lit. Frá yfirborði tunglsins sæi geimfari þunnan rauðan hring umlykja myrkvaða jörð - án efa tignarleg sjón," segir þar.

Tunglmyrkvar geta aðeins orðið þegar sólin, jörðin og tunglið liggja hér um bil í beinni línu.

Á Stjörnufræðivefnum er fjallað ítarlega um almyrkvann. Umfjöllunina má lesa með því að smella hér.

Þar er einnig að finna myndband þar sem líkt er eftir almyrkvanum á morgun. Horfið á það hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×