Innlent

Sérfræðingar rannsaka brunann hjá Alcoa

Aðilar frá Brunamálastofnun er á leið austur til þess að rannsaka hvað olli sprengingu í spennistöð álvers Alcoa á Reyðarfirði á laugardag. Einnig er von á erlendum sérfræðingum í dag eða á morgun. Ljóst er að rannsókn mun taka nokkra mánuði.

Það var rétt eftir klukkan fimm á laugardag sem sprengining varð en í kjölfarið kom upp mikill eldur og allt rafmagn fór af álverinu. Enginn slasaðist í sprengingunni sem varð í svokölluðum afriðli. Að sögn Ernu Indriðadóttur fjölmiðlafulltrúa Alcoa er ekkert vitað um upptök eða tjón á þessari stundu. Ljóst sé að rannsókn muni taka nokkra mánuði, því meðal annars þurfi að senda afriðilinn til útlanda í rannsókn.

Aðilar frá brunamálastofnun eru ná á leið austur til þess að kanna aðstæður en einnig er von á erlendum sérfræðingum í dag eða á morgun. Erna segir mjög óvenjulegt að sprenging verði með þessum hætti og því muni aðilar frá framleiðanda afriðilsins skoða málið.

Hún segir einnig að það hafi tekið talsverðan tíma að koma framleiðslu álversins aftur í gang eftir rafmagnsleysið, en sú vinna sé í fullum gangi og hún gangi vel.

Guðmundur Helgi Sigfússon slökkviliðsstjóri Fjarðabyggðar sagði í samtali við fréttastofu í morgun að ljóst væri að verr hefði getað farið, enda mikil olía á staðnum sem erfitt sé að eiga við.

Um mikinn bruna hafi verið að ræða, en slökkviliðið í samstarfi við brunamálastofnun muni skoða þetta mál á næstu dögum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×