Innlent

Brestir í greiðsluaðlögunarúrræðinu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Ásta Sigrún Helgadóttir er umboðsmaður skuldara.
Ásta Sigrún Helgadóttir er umboðsmaður skuldara.
Umboðsmaður skuldara telur að dómur Hæstaréttar, frá því í gær, um að kröfuhöfum sé heimilt að ganga að ábyrgðarmönnum einstaklinga sem gengist hafa undir nauðasamning til greiðsluaðlögunar sýnir hugsanlega bresti í því úrræði sem greiðsluaðlögun á að vera.

Umboðsmaður skuldara segir, i orðsendingu til fjölmiðla, að dómurinn hafi ekki áhrif á greiðslustöðvun þeirra sem sótt hafa um greiðsluaðlögun einstaklinga og er ekki hægt að ganga að ábyrgðarmönnum umsækjenda.

Dómurinn taki sérstaklega til staðfestra nauðasamning til greiðsluaðlögunar, þ.e. þeirra sem fengu samning um greiðsluaðlögun sem samþykktir voru af dómsstólum en eru ekki frjálsir samningar eins og þeir sem umboðsmaður skuldara hefur milligöngu um.

Umboðsmaður skuldara segir að ekkert sé því til fyrirstöðu að kröfuhafar skuldara samþykki frjálsan samning sem innihaldi ákvæði þess efnis að kröfur sem gefnar eru eftir samkvæmt samningi um greiðsluaðlögun falli einnig niður gagnvart ábyrgðarmönnum.

Falli ábyrgð ekki niður samhliða samningi um greiðsluaðlögun geti ábyrgðarmaður átt endurkröfurétt á þann skuldara sem fékk greiðsluaðlögun. Það geti leitt til þess að skuldari fari í gjaldþrot og sé greiðsluaðlögunin þá fyrir bí. Fái ábyrgðarmaður ekkert upp í kröfu sína geti hann jafnframt þurft að leita eftir greiðsluaðlögun. Sæki fjármálafyrirtæki það hart að ganga að ábyrgðarmönnum, geti skuldavandi heimilanna aukist margfalt. Því sé það afar mikilvægt að ná samkomulagi við fjármálafyrirtæki um að þeir muni ekki ganga að kröfuhöfum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×