Innlent

Grunur um fjárdrátt í fangelsi

Kvíabryggja Fangelsismálastofnun vakti athygli dómsmálaráðherra á fjárreiðum og bókhaldi fangelsisins á Kvíabryggju.
Kvíabryggja Fangelsismálastofnun vakti athygli dómsmálaráðherra á fjárreiðum og bókhaldi fangelsisins á Kvíabryggju.

Forstöðumaður Kvíabryggju hefur verið leystur frá störfum vegna gruns um að hann hafi misnotað aðstöðu sína með því að taka út varning í nafni fangelsisins til eigin nota. Grunur leikur á að meint misferli hafi átt sér stað um nokkurra mánaða skeið, eftir því sem Fréttablaðið kemst næst, og að um umtalsverðar upphæðir gæti verið að ræða.

Það var Fangelsismálastofnun sem vakti athygli dómsmála- og mannréttindaráðuneytis­ins á aðfinnslum sem hún hefur gert við fjárreiður og bókhald fangelsisins að Kvíabryggju. Ráðuneytið ræddi málið við forstöðumann fangelsisins og óskaði hann í framhaldi af því að Ríkisendurskoðun yrði falið að fara yfir bókhaldið.

„Ég heimilaði að forstöðumaðurinn yrði leystur frá störfum og að þessi rannsókn færi fram,“ segir Ögmundur Jónasson dómsmálaráðherra. „Það geri ég að sjálfsögðu af því að ég, sem dómsmálaráðherra, er ábyrgðarmaður fyrir fangelsin, skipa fangelsisstjóra og þar af leiðandi kemur það í minn hlut að veita honum lausn ef þörf er á. Þetta er gert á grundvelli starfsmannalaga og er eðlilegur farvegur fyrir þetta mál, enda hef ég eftirlitsskyldu með höndum sem dómsmálaráðherra. Ég undirstrika að þetta er í samræmi við óskir forstöðumanns fangelsins á Kvíabryggju.“

Páll E. Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar, kvaðst ekki vilja tjá sig um málið þegar Fréttablaðið leitaði eftir því.- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×