Innlent

Leita að svigrúmi í lögunum

Árni Páll Árnason efnahags- og viðskiptaráðherra segir að farið verði vandlega yfir nýjan dóm Hæstaréttar.
Árni Páll Árnason efnahags- og viðskiptaráðherra segir að farið verði vandlega yfir nýjan dóm Hæstaréttar.

Farið verður vandlega yfir nýjan dóm Hæstaréttar í máli þar sem banka var heimilað að ganga á ábyrgðarmenn lántaka sem fengið hafði greiðsluaðlögun, segir Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra.

Dómurinn byggir á því að ákvæði laga um greiðsluaðlögun standist ekki eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Óheimilt sé að meina bönkum að krefja ábyrgðarmenn um greiðslur vegna lána fólks sem fær greiðsluaðlögun.

Árni segir dóminn ekki girða alfarið fyrir löggjöf sem nái því markmiði að hlífa ábyrgðarmönnunum. Það sé mikilvægur hluti laga um greiðsluaðlögun, þar sem ella sé hætta á að lausn á vanda eins skuldara komi öðrum í greiðsluvanda sem þá þurfi að leysa.

Í yfirlýsingu frá embætti umboðsmanns skuldara kemur fram að dómurinn nái aðeins til þeirra sem fengu samning um greiðsluaðlögun samþykktan af dómstólum. Dómurinn hafi ekki áhrif á þá sem hafi gert frjálsa samninga eins og þá sem umboðsmaður hafi haft milligöngu um.

Þar segir að falli ábyrgð ekki niður samhliða samningi um greiðsluaðlögun eigi ábyrgðarmaðurinn kröfu á þann sem fengið hafi greiðsluaðlögun. Það geti leitt til þess að skuldarinn fari í þrot, og greiðsluaðlögunin verði fyrir bí.- bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×