Innlent

Karl og kona hafa kært kynferðisbrot

Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði kröfu um framlengingu á gæsluvarðhaldi.
Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði kröfu um framlengingu á gæsluvarðhaldi.

Karlmanni á fimmtugsaldri, sem grunaður er um kynferðisbrot gegn að minnsta kosti tveimur einstaklingum, þegar þeir voru börn, var sleppt úr gæsluvarðhaldi í fyrradag.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafði krafist framlengingu á gæsluvarðhaldi yfir manninum á grundvelli almannahagsmuna. Dómari varð ekki við því og var maðurinn látinn laus. Úrskurðurinn var ekki kærður til Hæstaréttar.

Maðurinn sem um ræðir er búsettur á höfuðborgarsvæðinu. Hann var handtekinn um miðjan mánuðinn og síðan úrskurðaður í gæsluvarðhald.

Tæplega tvítugur piltur varð fyrstur til að kæra manninn, eins og Fréttablaðið hefur greint frá, og síðan kom önnur kæra frá stúlku um tvítugt í kjölfarið.

Lögreglan heldur rannsókn málsins áfram. Meðal annars eru til rannsóknar tölvugögn sem hald var lagt á heima hjá manninum í húsleit. Grunur leikur á að misnotkunin hafi staðið um nokkurt skeið.

Rannsókn lögreglu beinist jafnframt að því hvort um fleiri börn sé að ræða.- jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×