Innlent

Auðlindarentan renni til þjóðarinnar

Steingrímur J. Sigfússon
Steingrímur J. Sigfússon

 Að þjóðin eigi náttúruauðlindir landsins er yfirmarkmið heildstæðrar stefnu stjórnvalda í orku- og auðlindamálum sem unnið er að. Þetta kom fram í máli Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra á málþingi um eignarhald orkufyrirtækja í gær.

„Varanleg eign þjóðarinnar á auðlindum landsins felur í sér að farið sé af ábyrgð með þær. Þær séu ekki nýttar af skammsýni heldur skili líka afrakstri til komandi kynslóða og að auðlindarentan skili sér til þjóðarinnar,“ sagði Steingrímur en stýrihópur á vegum iðnaðarráðuneytisins hefur unnið að orkustefnu frá því í ágúst á síðasta ári.

Steingrímur ræddi einnig eiganda- og arðgreiðslustefnu ríkisins gagnvart orkufyrirtækjunum í eigu þess, en hafin er vinna við slíka stefnu í fjármálaráðuneytinu. „Við viljum leggja það niður til framtíðar hvernig við ætlum að sækja arðinn af þessum auðlindum,“ sagði Steingrímur og bætti við: „Liggja á fyrir hvernig ríkið ætlar að standa að málum sem eigandi, til hvers það ætlast af fyrirtækjunum í sinni eigu og hverjar leikreglurnar eru.“

Að lokum sagðist Steingrímur vera þeirrar skoðunar að tryggasta leiðin til að sjá til þess að þjóðin njóti góðs af arði auðlinda sinna sé opinbert eignarhald.- mþl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×