Innlent

Kýldi og kjálkabraut karlmann við Krílið

Erla Hlynsdóttir skrifar
Mynd úr safni

Karlmaður á þrítugsaldri var í Héraðsdómi Vestfjarða dæmdur í sjö mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa slegið annan karlmann ítrekað hnefahöggum í andlitið með þeim afleiðingum að hann kjálkabrotnaði, tveir endajaxlar losnuðu og slímhúð í kjálka rofnaði, ásamt því að tilfinning í neðri vör skertist.

Atvikið átti sér stað í apríl á þessu ári fyrir utan verslunina Krílið við Sindragötu á Ísafirði

Maðurinn var einnig dæmdur til að greiða brotaþola tæpar 400 þúsund krónur í miskabætur, sem og málskostnað.

Sá dæmdi á að baki tvo refsidóma. Annar þeirra er fyrir handrukkun árið 2008 og hinn fyrir líkamsárás á síðasta ári.

Við skýrslutöku bar brotaþoli að hann hafi umrædda nótt farið af skemmtistaðnum Ömmu Habbý að versluninni Krílinu ásamt félaga sínum sem ætlaði að kaupa sígarettur. Þegar þeir voru að versla í bílalúgu kom Hummer-bifreið aftan að þeim og ýtti ökumaður á flautuna. Félagi brotaþola leit þá við og gaf ökumanni „puttann." Þá var aftur flautað og brotaþoli gekk að bílnum farþegamegin þar sem rúðan var skrúfuð niður.

Farþegi bílsins spurði manninn hvort hann hafi verið að sýna sér „puttann" en brotaþoli neitaði því og sagði vin sinn hafa gert það. Farþeginn andmælti og eftir skamma stund gaf brotaþoli honum fingurinn og spurði „Já, ertu að tala um þennan putta?".

Við það kýldi farþeginn manninn með krepptum hnefa út um opinn gluggann þannig að hann vankaðist. Því næst var bílnum ekið í burtu en brotaþoli stóð eftir með brotinn kjálka. Hann þurfti að vera á fljótandi fæði í sjö vikur eftir árásina.

Spurður af lögreglu hvort hann hafi verið að ögra farþega bílsins sagði hann: „Já, auðvitað er þetta ákveðin ögrun, en þetta var meira, kannski, svona grín bara." Hann vildi ekki kannast við að hann hafi verið ógnandi í tilburðum.

Dómurinn var kveðinn upp þann 19. nóvember.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×