Innlent

Leiðrétting: Lögregla hvatti til kæru

Nauðgunin átti sér stað á Þjóðhátíð.
Nauðgunin átti sér stað á Þjóðhátíð.

Vísir greindi frá því 27. október síðastliðinn að 22. ára gömul kona hefði verið lött til þess að kæra nauðgun af yfirmanni kynferðisbrotadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, Björgvini Björgvinssyni. Konan lýsti reynslu sinni þar sem hún sagðist hafa orðið fyrir nauðgun í Vestmannaeyjum síðustu verslunarmannahelgi. Þegar hún hafi ætlað kæra árásina sagði hún í viðtali við Vísi að hún hefði fengið þau svör að það væri tímasóun að kæra málið í ljósi þess að hún sá aldrei gerandann.

Vísir byggði fréttina á framburði konunnar sem lýsti tveggja manna tali við Björgvin. Hann neitar þessari lýsingu alfarið og hefur sýnt fréttamönnum Vísis gögn þar sem ferill málsins er rakinn nákvæmlega hjá lögreglunni. Þar kemur bersýnilega í ljós að málið var tekið mjög alvarlega og rannsókn þegar hrundið af stað. Þá var tvívegis haft samband við konuna eftir samtal hennar við Björgvin, og hún hvött til þess að kæra málið.

Ennfremur var réttargæslumaður skipaður sem var þó aldrei kallaður á fund með stúlkunni þar sem hún hætti við að kæra.

Í ljósi þess að kynferðisbrotadeild lögreglunnar leitaðist við að fá stúlkuna til þess að kæra, auk þess sem rannsókn var hafin á málinu, að viðbættri eindreginni neitun Björgvins um að samskiptum við stúlkuna sé rétt lýst af hennar hálfu, hefur Vísir ákveðið að draga fréttina til baka. Björgvin og aðrir aðilar tengdir málinu eru ennfremur beðnir afsökunar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×