Erlent

Norðmenn blása á Wikileaks

Óli Tynes skrifar
Jónas Gahr Störe vildi endilega hitta Heru Björk í Eurovision keppninni.
Jónas Gahr Störe vildi endilega hitta Heru Björk í Eurovision keppninni.

Jónas Gahr Störe utanríkisráðherra Noregs segir að norskir diplomatar verði ekki múlbundnir á nokkurn hátt í kjölfar Wikileaks skjalanna. Blaðamenn spurðu hann hvort diplomötum yrði gert að gæta orða sinna þegar þeir sendu utanríkisráðuneytinu tölvupóst. Ráðherrann sagði að það væri synd að setja á það einhverjar hömlur. Þeir væru að lýsa skoðunum sínum á mönnum og málefnum og ættu að hafa um það frjálsar hendur.

Í lagi að „dissa" framkvæmdastjóra Sþ

Ráðherrann var þá spurður um mál sendifulltrúans Monu Juul sem gagnrýndi Ban Ki-moon framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna miskunnarlaust í trúnaðarbréfi sem hún sendi norska utanríkisráðuneytinu. Hún sagði meðal annars að hann hefði enga persónulega útgeislun.

Störe sagði að Mona Juul hefði alveg verið innan ramma þess sem leyfilegt væri. Vandamálið hefði ekki verið það sem hún skrifaði heldur að það skyldi leka út. Eins og margir aðrir framámenn gagnrýnir Störe birtingu Wikileaks á diplomatapóstunum. Hann segir að vandinn sé sá að slíkir lekar geri það erfiðara að skiptast á hreinskilnum skoðunum í diplomatapóstum, sem sé alveg nauðsynlegt. Hann segir einnig að hann hafi ekki nokkra trú á að Wikileaks birtingarnar hafi einhver pólitísk áhrif til frambúðar.

Allir diplomatar skrifa frjálslega

Í frétt um þetta mál í Aftenposten er einnig rætt við Janne Haaland Matlary. Hún er prófessor í alþjóðastjórnmálum við háskólann í Osló og fyrrverandi ráðuneytisstjóri í norska utanríkisráðuneytinu. Matlary segir að diplomatar allra landa tali frjálslega í tölvupóstum. Mesti munurinn á póstum norskra diplomata og þeirra bandarísku sé líklega tungumálið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×