Stjórnvöld í Íran hafa almennt gert lítið úr árásunum en utanríkisráðherrann Abbas Araghchi sagði þær ógn við „alþjóðlegan frið og öryggi“ í erindi til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, sagði árásirnar hafa beinst gegn hernaðarlegum innviðum Íran en um var að ræða svar við árásum Írana á Ísrael á dögunum. Höfðu margir vænst þess að hefndarárásirnar yrðu umfangsmeiri en raun bar vitni.
Stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa kallað eftir stillingu en margir óttast að ítrekaðar árásir á báða bóga gætu leitt til allsherjar stríðs á svæðinu.
Masoud Pezeshkian, forseti Íran, sagði stjórnvöld ekki leitast eftir því að fara í stríð við Ísrael en að árásunum yrði svarað á „viðeigandi“ hátt. Íranir áskildu sér rétt til að verja land sitt og þjóð.