Innlent

Reykjavíkurborg hækkar skatta

Jón Gnarr borgarstjóri í Reykjavík.
Jón Gnarr borgarstjóri í Reykjavík.
Skattar verða hækkaðir á borgarbúa í nýrri fjárhagsáætlun sem meirihlutinn í Reykjavík leggur fyrir borgarstjórn í dag. Stefnt er að blandaðri leið hagræðingar og gjaldahækkana til að stoppa upp í 5 milljarða halla á borginni.

Meirihluti Besta flokks og Samfylkingar kynnir fjárhagsáætlun sína á fundi eftir hádegi. Samkvæmt heimildum fréttastofu mun ætlunin að hagræða í rekstri borgarinnar um 1700 milljónir króna og hækka gjöld um aðrar 1700 milljónir. Þar munar ekki síst um útsvarið en ætlunin mun að hækka það upp í um það bil 13,20% - úr 13,03 prósentum. Ef rétt reynist verður útsvarsheimildin ekki fullnýtt en sveitarfélögum er heimilt að leggja allt að 13,28% útsvar á íbúa.

Áætlað er að útsvarshækkunin skili borginni tæpum 500 milljónum króna. Þá stendur til, samkvæmt heimildum, að hækka fasteignagjöld, þó ekki meir en svo að borgin nái inn sömu krónutölu og nú. Fasteignagjöld - sem eru annar stærsti tekjustofn sveitarfélaga - eru hlutfall af fasteignamati. Fyrirséð er að fasteignamat á eftir að lækka og því hefði óbreyttur fasteignaskattur skilað borginni færri krónum en nú.

Af sparnaðartillögum verður meðal annars skoðað að sameina leik- og grunnskóla og frístundaheimili að einhverju leyti eins og fram hefur komið. Ekki liggur þó fyrir hvaða skólar verða sameinaðir, hópur undir forystu Oddnýjar Sturludóttir á að leggja fram tillögur um sameiningar þann fyrsta febrúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×